14 milljónir króna afhentar Geðhjálp, BUGL og Forma „Þökkum landsmönnum jákvæð viðbrögð“

14 milljónir króna afhentar Geðhjálp, BUGL og Forma „Þökkum landsmönnum jákvæð viðbrögð“

  • 30.11.2007

30. nóvember 2007
Kiwanishreyfingin á Íslandi hefur afhent Geðhjálp, BUGL og Forma samtals 14 milljónir króna sem söfnuðust í landssöfnuninni Lykill að lífi til styrktar geðsjúkum og aðstandendum þeirra. „Við þökkum landsmönnum jákvæð viðbrögð og bakhjörlum söfnunarinnar fyrir stuðninginn. Einnig þökkum við fyrirtækjum og félagasamtökum sem styrktu söfnunina með fjárframlögum. Við efumst ekki um að framlögin muni koma í góðar þarfir hjá Geðhjálp, BUGL og Forma,“ segir Bernhard Jóhannesson, formaður K-dagsnefndar.

Salan á K-lyklinum fór fram um allt land dagana 4.-7. október. Kiwanisfélagar og annað sölufólk gekk í hús og verslunarmiðstöðvar, auk þess sem K-lykillinn var seldur í Bónusverslunum og á þjónustustöðvum Olís. Sparisjóðirnir á Íslandi, Toyota, Olís og Bónus voru bakhjarlar verkefnisins og Sparisjóðirnir á Íslandi voru jafnframt fjárvörsluaðili söfnunarinnar. Kiwanishreyfingin á Íslandi hefur allt frá árinu 1974 staðið fyrir landssöfnun þriðja hvert ár með sölu á K-lyklinum. Ágóði af landssöfnununum hefur runnið til fjölda verkefna til hjálpar geðsjúkum. Tilgangurinn er að vekja þjóðina til umhugsunar um málefni geðsjúkra og safna fé til þess að styðja við endurhæfingu þeirra. Að þessu sinni var sjónum sérstaklega beint að ungu fólki sem glímir við geðræn vandamál.

Bernhard segir vitund almennings um K-lykilinn hafa aukist umtalsvert í kjölfar sölu K-lykilsins nú í haust og vitnar í viðhorfskönnun Capacent frá október sl. Samkvæmt henni þekkja nú  tæplega 85% svarenda K-lykilinn samanborið við ríflega 61% í síðustu mælingu í janúar 2007. Jafnframt hafi viðhorf almennings til K-lykilsins mælst marktækt jákvæðara. „Þetta skilar sér svo í aukinni umræðu um geðheilbrigðismál - og þar með er markmiðum okkar náð. Við fundum áþreifanlega fyrir þessu meðan á sölunni stóð - allir vissu um hvað málið snerist," segir hann.
Geðhjálp mun við ráðstöfun síns hluta söfnunarfjárins einbeita sér að ungu fólki á aldrinum 12-25 ára sem á við geðraskanir að stríða. Ætlunin er að efla, styrkja og samþætta þau úrræði sem víða eru í boði en eru ekki nægjanlega sýnileg eða aðgengileg, jafnframt því sem leitast verður við að finna úrræði þar sem á skortir. BUGL hyggst nýta sinn hluta söfnunarfjárins til verkefna sem gera legudeildarsjúklingum kleift að fá þjálfun og afþreyingu utan deildarinnar. M.a. á að endurnýja leikaðstöðu utandyra og auðvelda skjólstæðingum BUGL með ýmsu móti að verða sér úti um holla hreyfingu og stunda uppbyggilega tómstundaiðju. Forma mun nýta styrkinn til að efla ráðgjafarstarfsemi sína um land allt svo átröskunarsjúklingar eigi auðveldara með að leita sér hjálpar. Einnig verður komið á fót skipulegri forvarnafræðslu í 8. bekk grunnskóla og 1. bekk framhaldsskóla til að sporna við fjölgun átröskunarsjúklinga.

Nánari upplýsingar veitir:
Bernhard Jóhannesson, formaður K-dagsnefndar Kiwanis, í síma 893 5163.
Ljósmynd/Gunnar Sigurjónsson:
Svanur Kristjánsson, formaður Geðhjálpar, Eggert S. Sigurðsson, varaformaður Geðhjálpar, Guðrún Bryndís Guðmundsdóttir, yfirlæknir BUGL, Linda Kristmundsdóttir, deildarstjóri göngudeildar BUGL, Vilborg G. Guðnadóttir, deildarstjóri legudeilda BUGL, Edda Ýrr Einarsdóttir, formaður Forma, Ósk Sigurðardóttir, yfiriðjuþjálfi BUGL,
Gylfi Ingvarsson, umdæmisstjóri Kiwanis, og Bernhard Jóhannesson, formaður K-dagsnefndar.